Upplýsingar um stjórnarhætti

Birting upplýsinga um stjórnarhætti fyrirtækja eykur gagnsæi um stjórnarhætti þeirra gagnvart hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum. Þannig stuðlar birting slíkra upplýsinga að auknu aðhaldi og trúverðugleika fyrirtækja.

Stjórnarháttayfirlýsing

 1. Árlega skal birta yfirlýsingu um stjórnarhætti félagsins fyrir nýliðið starfsár í sérstökum kafla í ársreikningi þess eða ársskýrslu. Skal stjórnarháttayfirlýsingin vera aðgengileg á vefsíðu félagsins.
 2. Í stjórnarháttayfirlýsingu skulu eftirfarandi atriði koma fram:
  1. Tilvísanir í þær reglur um stjórnarhætti sem félagið fylgir eða ber að fylgja samkvæmt lögum og hvar slíkar reglur eru aðgengilegar almenningi.
  2. Hvort félagið víki frá hluta leiðbeininganna og þá hvaða. Greina skal frá ástæðum frávika, því hvernig komist var að niðurstöðu um að víkja frá tilmælunum og þeim úrræðum sem gripið var til í stað þeirra. Ef frávikið er tímabundið skal koma fram hvernig félagið mun mæta tilmælum síðar.Sjá umfjöllun um „fylgið eða skýrið“ regluna í inngangi.
  3. Tilvísanir í annars konar reglur og viðmið sem einnig er farið eftir og eiga sérstaklega við um þá tegund rekstrar sem félagið er í.
  4. Lýsing á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustjórnun félagsins.
  5. Upplýsingar um stefnu um samfélagslega ábyrgð og siðferðisviðmið.
  6. Lýsing á samsetningu og starfsemi stjórnar, framkvæmdastjórnar og undirnefnda stjórnar.
  7. Fyrirkomulag skipunar nefndarmanna tilnefningarnefndar.
  8. Fyrirkomulag skipunar nefndarmanna undirnefnda stjórnar.
  9. Upplýsingar um fjölda stjórnarfunda og funda undirnefnda og mætingu.
  10. Hvar megi nálgast starfsreglur stjórnar og undirnefnda.
  11. Upplýsingar um stjórnarmenn, sbr. lið 2.3.6.
  12. Upplýsingar um hvaða stjórnarmenn eru óháðir félaginu og stórum hluthöfum.
  13. Helstu þætti í árangursmati stjórnar.
  14. Upplýsingar um framkvæmdastjóra félagsins, sbr. lið 4.1, og lýsing á helstu skyldum hans.
  15. Upplýsingar um brot á lögum og reglum sem viðeigandi eftirlits- og eða úrskurðaraðili hefur ákvarðað.
  16. Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar.
 3. Framangreint gildir jafnt um samstæðureikningsskil.
 4. Stjórn skal yfirfara stjórnarháttayfirlýsingu félagsins og endurskoðandi þess skal hafa eftirlit með því að hana sé að finna í ársreikningi/ársskýrslu og að lýsing hennar á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustjórnunar sé í samræmi við reikningsskil félagsins.

Vefsíða félagsins

 1. Félagið skal tileinka sérstakan hluta af vefsíðu sinni góðum stjórnarháttum og birta þar stjórnarháttayfirlýsingu þess og allar helstu upplýsingar um starfsemi félagsins.
 2. Á vefsíðu félagsins skal m.a. að birta eftirfarandi upplýsingar:
  1. Stjórnarháttayfirlýsingar félagsins.
  2. Starfskjarastefnu félagsins.
  3. Samandregnar upplýsingar um stjórnarmenn félagsins, framkvæmdastjóra, endurskoðendur og nefndarmenn undirnefnda stjórnar.
  4. Upplýsingar um hluthafafundi félagsins, þ.m.t. tíma og staðsetningu, upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar og dagskrá fundarins ásamt útgáfudagsetningu ársreikninga og árshlutareikninga.
  5. Fundarboð, fundargerðir hluthafafunda og framlögð fundargögn. Ekki er þó þörf á að birta skrá yfir þá hluthafa og umboðsmenn hluthafa sem sótt hafa fundina.
  6. Upplýsingar um fyrirkomulag við skipun tilnefningarnefndar, starfsreglur nefndarinnar og upplýsingar um nefndarmenn. Upplýsingar um nefndarmenn skal birta a.m.k. sex mánuðum fyrir aðalfund.
  7. Rökstuðning tilnefningarnefndar vegna tilnefninga stjórnarmanna.
  8. Upplýsingar um það hvernig hluthafar geta lagt fram tillögur að stjórnarmönnum fyrir tilnefningarnefnd.
  9. Samþykktir félagsins.
  10. Starfsreglur stjórnar.
  11. Ársreikninga félagsins og skýrslur stjórnar.
 3. Framangreindar upplýsingar skulu uppfærðar innan sjö daga frá því stjórnarmenn og/eða daglegir stjórnendur félagsins fá vitneskju um að þær hafi tekið breytingum.