Hluthafar og hluthafafundur

1. kafli ber nú yfirskriftina „Hluthafar og hluthafafundur“, en bar áður heitið „Hluthafafundur“.

 • 1.1 Aðalfundur og hluthafafundur
  • Í liðum 1.1.1 og 1.1.3 er að finna ný tilmæli sem ætlað er að stuðla að virku eignarhaldi og upplýstri ákvarðanatöku hluthafa á hluthafafundi.
  • Í lið 1.1.5 er að finna ný tilmæli sem kveða á um að í fundarboði skuli kynna tillögur tilnefningarnefndar og önnur framboð til stjórnarsetu.
  • Í lið 1.1.6 er nú efnislega sama umfjöllun og áður var undir kafla 1.2 um mætingu forsvarsmanna á hluthafafund en hún þótti betur eiga heima undir kafla 1.1 um upplýsingar um aðalfund.
 • 1.2 Mæting forsvarsmanna á hluthafafund
  • Í lið 1.2.3 er nú kveðið á um að í það minnsta einn nefndarmaður tilnefningarnefndar skuli vera viðstaddur hluthafafund.
  • Tilmæli um upplýsingar um aðila í framboði hafa verið færð í lið 1.1.6.
 • Fjarlægður hefur verið kafli um fundargerðir hluthafafunda. Tilmæli um að fundargerðir fyrri hluthafafunda skuli vera aðgengilegar á vefsíðu félagsins er þó enn að finna í leiðbeiningunum en þau hafa verið færð í kafla 6.2 um vefsíðu félagsins.

 • 1.4 Hlutaskrá
  • Tilmæli um hlutaskrá kváðu áður á um að æskilegt væri að í hlutaskrá væri gerð grein fyrir forsvarsmönnum þeirra félaga sem skráðir eru hluthafar í félaginu. Nú er fjallað um þetta atriði í skýringu við lið 1.4.1 en þar kemur nú einnig fram að við mat á því hvort forsvarsmaður skuli skráður í hlutaskrá megi til að mynda líta til þess hve stór eignarhlutur hluthafans er í félaginu.

 • 1.5 Tilnefningarnefnd
  • Tilnefningarnefnd heyrir nú undir hluthafafund og er umfjöllun um nefndina að finna í kafla 1.5. Áður var fjallað um tilnefningarnefnd í 5. kafla um undirnefndir stjórnar.
  • Tilmæli í lið 1.5.1 kveða á um að hluthafafundur skuli skipa tilnefningarnefnd eða ákveða hvernig hún skuli skipuð.
  • Eftirfarandi ákvæði bætt við í lið 1.5.3 „Stjórnarmönnum félagsins er heimilt að sitja í tilnefningarnefnd en þeir skulu ekki mynda meirihluta hennar. Þá skulu þeir ekki gegna formennsku í nefndinni. Þetta á jafnt við um formann stjórnar og aðra stjórnarmenn.“ Áður kom einungis fram að stjórnarformaður félagsins skyldi ekki vera formaður tilnefningarnefndar.
  • Tilmæli í lið 1.5.4 kveða nú á um að hvorki stjórnendur félagsins né starfsmenn þess skuli eiga sæti í tilnefningarnefnd. Áður voru stjórnendur einungis nefndir.
  • Í lið 1.5.6 kemur nú fram að tilkynna skuli um skipun nefndarmanna ekki síðar en sex mánuðum fyrir aðalfund en áður kom fram að tilnefningarnefnd skuli skipuð eigi síðar en sex mánuðum fyrir aðalfund.
  • Skerpt hefur verið á tilmælum um hlutverk tilnefningarnefndar í lið 1.5.8 og hafa eftirfarandi atriði verið tekin út.
   • að upplýsa tilvonandi stjórnarmenn um þá ábyrgð sem fólgin er í stjórnarsetu fyrir félagið.
   • að tryggja að hluthafar fái upplýsingar um stjórnarmenn.
   • að vinna úr niðurstöðum árlegs árangursmats stjórnar og daglegra stjórnenda.
  • Við fyrsta efnisatriði í lið 1.5.8 hefur nú verið bætt að tilnefningarnefnd skuli notast við árlegt árangursmat stjórnar við mat á tilvonandi stjórnarmönnum.
  • Í lið 1.5.10 var bætt við tilmælunum „Tilnefningarnefnd skal óska eftir tillögum frá hluthöfum tímanlega fyrir aðalfund félags“.