Úttekt á stjórnarháttum

Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman til að bæta eftirfylgni fyrirtækja við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Í þeim tilgangi hafa þessir aðilar undirritað samstarfssamning sem felur í sér að öllum fyrirtækjum gefst tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.

Það er sérstakt fagráð sér um framkvæmd matsins, en matsferlið byggir í meginatriðum á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Úttektaraðilar, sem Rannsóknarmiðstöðin hefur metið hæfa til verksins, hafa með höndum söfnun gagna, viðtöl við stjórnarmenn og skýrslugerð til fagráðsins.

Viðurkenning til fyrirmyndarfyrirtækja í góðum stjórnarháttum

Þeim fyrirtækjum sem standast matsferlið að mati fagráðsins verður veitt viðurkenning þar að lútandi. Viðurkenningin sem Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum gildir í þrjú ár nema verulegar breytingar hafi orðið á stjórn eða eignarhaldi fyrirtækisins.

Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland hvetja stjórnendur allra fyrirtækja til að undirgangast mat á stjórnarháttum þeirra. Þessir aðilar veita, á grundvelli úttektar fagráðsins, fyrirtækjunum áðurnefnda viðurkenningu og halda þannig merkjum þeirra á lofti sem eru öðrum fyrirmynd um góða stjórnarhætti.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að undirgangast mat á stjórnarháttum geta haft samband við Rannsóknarmiðstöðina eða Viðskiptaráð Íslands. Fyrirtæki standa sjálf straum af kostnaði þess ráðgjafafyrirtækis sem þau ráða til verksins og fagráðsins.

Þegar fyrirtæki hafa lokið ferlinu hjá einum af úttektaraðilunum geta þeir sent skýrslur sínar til forstöðumanns Rannsóknarmiðstöðvarinnar, dr. Eyþórs Ívars Jónssonar. Viðmiðunarverð fyrir stærri fyrirtæki og heildstæða skýrslugjöf er 350.000 kr.

Til þess að viðhalda viðurkenningunni milli ára ber fyrirtækjum sem fengið hafa viðurkenningu að upplýsa um breytingar og framþróun á stjórnarháttum fyrirtækisins fyrir 31. maí ár hvert. Engin kostnaður er við að viðhalda viðurkenningu á milli ára. Eftirfarandi atriði þurfa að koma fram:

  • Nöfn og kennitölur stjórnarmanna og upplýsingar um breytingar á stjórn frá fyrra ári.
  • Helstu aðgerðir ársins til þess að efla góða stjórnarhætti fyrirtækisins.
  • Eyðublað til þess að fylla út vegna endurnýjunar viðurkenningar má finna hér.

Endurnýjun viðurkenningar

Þegar þrjú ár eru liðin frá því að fyrirtæki hlaut viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti þarf það að endurnýja slíka viðurkenningu. Til þess að viðhalda viðurkenningunni þurfa fyrirtæki að gera fagráðinu grein fyrir helstu breytingum sem hafa átt sér stað hjá þeim frá fyrri úttekt. Hafi hins vegar átt sér stað mikilsháttar breytingar á fyrirtækinu, s.s. á eignarhaldi, skipt hefur verið um meirihluta stjórnar eða félagið hefur verið sameinað öðru þá þarf að endurtaka matsferlið í heild sinni. Viðmiðunarverð endurnýjunar er 150.000 kr.

Tengiliður Viðskiptaráðs er Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri ráðsins.