Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja

Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Það er jafnframt skoðun útgáfuaðila að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu. Hvort tveggja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Upplýsingar varðandi leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja veitir

Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs og verkefnisstjóri 6. útgáfu leiðbeininganna í tölvupósti á agla@vi.is

Breytingar í 6. útgáfu

Hér er að finna þær breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja frá því í 5. útgáfu.

Fróðleikur

Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja eru gefnar út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins. Leiðbeiningarnar komu fyrst út árið 2004 og endurskoðuð útgáfa var gefin út ári síðar. Þriðja útgáfa leiðbeininganna var gefin út árið 2009, sú fjórða árið 2012 og sú fimmta árið 2015. Nýjasta útgáfa leiðbeininganna kom út í febrúar árið 2021.

Hér má nálgast fyrri útgáfur leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja:

Starfshópurinn sem stendur að útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja á í samstarfi fjölmargra aðila sem gefa út sambærilegar leiðbeiningar í Evrópu og á Norðurlöndum. Á vettvangi Evrópuríkja gengur samstarfið undir heitinu European Corporate Governance Network, en samtök á Norðurlöndum sem gefa út leiðbeiningar um stjórnarhætti eiga í samstarfi undir heitinu Nordic Corporate Governance.


Leiðbeiningar um stjórnarhætti á öðrum Norðurlöndum má finna hér:

Einn helsti sérfræðingur Svía í stjórnarháttum, Per Lekcall, gaf út bókina The Nordic Corporate Governance Model árið 2014 og í henni fjallar hann um helstu einkenni norrænna stjórnarhátta. Bókina má nálgast hér.

Starfshópur um stjórnarhætti fyrirtækja

Í starfshópi um stjórnarhætti fyrirtækja sitja fulltrúar allra útgáfuaðila ásamt sérfræðingum úr atvinnulífi og háskólasamfélaginu. Við endurskoðun leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja leitaði starfshópurinn meðal annars til fulltrúa aðildarfyrirtækja Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins, fulltrúa mennta- og eftirlitsstofnana, ýmissa sérfræðinga í stjórnarháttum fyrirtækja, erlendra fræðimanna á sviði stjórnarhátta, stjórnarmanna ólíkra íslenskra fyrirtækja auk regluvarða í íslenskum fyrirtækjum. Starfshópurinn vann úr þeim fjölmörgu ábendingum sem honum bárust frá þessum aðilum og tók ákvörðun um hvaða breytingar yrðu gerðar á leiðbeiningunum.

Verkefnisstjóri 6. útgáfu leiðbeininganna

Agla Eir Vilhjálmsdóttir

Lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Þóranna Jónsdóttir (formaður)

Sérfræðingur í stjórnarháttum

Ari Guðjónsson

Yfirlögfræðingur Icelandair Group

Árni Sigurjónsson

Yfirlögfræðingur Marel

Berglind Ósk Guðmundsdóttir

Lögfræðingur og ráðgjafi

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri SA

Hjörleifur Pálsson

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir

Forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA

Ingunn Agnes Kro

Framkvæmdastjóri Jarðvarma

Kristín Friðgeirsdóttir

Alþjóðlegur stjórnendaráðgjafi

Magnús Harðarson

Forstjóri NASDAQ Iceland

Marta Guðrún Blöndal

Yfirlögfræðingur ORF líftækni

Svanhildur Hólm Valsdóttir

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Þórður Magnússon

Stjórnarformaður Eyris Invest

Þröstur Olaf Sigurjónsson

Prófessor við Háskóla Íslands

Agla Eir Vilhjálmsdóttir

Lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Úttekt á stjórnarháttum

Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq á Íslandi og Stjórnvísi hafa tekið höndum saman um að bæta eftirfylgni fyrirtækja við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Í þeim tilgangi hafa þessir aðilar undirritað samstarfssamning sem felur í sér að öllum fyrirtækjum gefst tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.

Framkvæmd matsins er í höndum Stjórnvísi, umsjónaraðila verkefnisins, en matsferlið byggir í meginatriðum á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Úttektaraðilar sem metnir eru hæfir og félagið sem meta skal ræður til verksins, hafa með höndum söfnun gagna, viðtöl við stjórnarmenn og skýrslugerð til félagsins og matsaðila á vegum Stjórnvísi.

Viðurkenning til fyrirmyndarfyrirtækja í góðum stjórnarháttum

Þeim fyrirtækjum sem standast matsferlið hjá fagaðila Stjórnvísi verður veitt viðurkenning þar að lútandi. Viðurkenningin „Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum“ gildir í þrjú ár nema verulegar breytingar hafi orðið á stjórn eða eignarhaldi fyrirtækisins.

Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq á Íslandi og Stjórnvísi hvetja stjórnendur allra fyrirtækja til að undirgangast mat á stjórnarháttum þeirra. Þessir aðilar veita, á grundvelli úttektar og matsins, fyrirtækjunum áðurnefnda viðurkenningu og halda þannig merkjum þeirra á lofti sem eru öðrum fyrirmynd um góða stjórnarhætti.

Fleiri fyrirtækjum en áður er nú ætlað að fylgja leiðbeiningum um stjórnarhætti og er því beint sérstaklega að þeim félögum sem í lögum og reglugerðum eru skilgreind sem „einingar tengdar almannahagsmunum.“ Má þar nefna verðbréfafyrirtæki, lífeyrissjóði, lánastofnanir, vátryggingarfélög, fyrirtæki í sjávarútvegi, stóriðju, orkugeiranum, flugfélög, fjarskiptafélög og skipafélög.

Framkvæmd

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að undirgangast mat á stjórnarháttum geta haft samband við Stjórnvísi eða Viðskiptaráð Íslands. Fyrirtæki standa sjálf straum af kostnaði þess úttektaraðila sem þau ráða til verksins (sjá lista yfir viðurkennda úttektaraðila hér) og af þátttökugjaldi til Stjórnvísi.

Þegar fyrirtæki hafa lokið ferlinu hjá einum af úttektaraðilunum geta þeir sent skýrslur sínar til framkvæmdastjóra Stjórnvísi, Gunnhildar Arnardóttur. Úttektarskýrslan er síðan metin af þar til bærum aðila og matið sent fyrirtækinu ásamt niðurstöðu þess.

Þegar þrjú ár eru liðin frá því að félag hlaut viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti þarf að framkvæma úttekt og mat að nýju með svipuðu sniði og í fyrsta sinn, til viðhalds viðurkenningarinnar í þrjú ár til viðbótar.

Þau ár sem ekki er send inn úttekt, ber fyrirtækjum sem fengið hafa viðurkenningu að upplýsa um breytingar og framþróun á stjórnarháttum fyrirtækisins undangengið starfsár. Þeim upplýsingum þarf að skila til Stjórnvísi fyrir 31. maí ár hvert, á til þess gerðu eyðublaði, sem fylla má út rafrænt og finna má hér. Þar þarf að upplýsa um nöfn og kennitölur stjórnarmanna, breytingar á stjórn frá fyrra ári og greina frá helstu aðgerðum félagsins á starsárinu til að efla frekar góða stjórnarhætti innan þess.

Um frekari upplýsingar vísast til vefsíðna Stjórnvísi sem umsjónaraðila verkefnisins.